Skoðun

Geðveikt nýtt ár?

Starri Reynisson skrifar

Nýtt ár er rétt handan við hornið. Árið sem er að líða hefur verið erfitt þar sem heimsfaraldur hefur sett líf allra úr skorðum. Það eru þó bjartari tímar framundan, bóluefni komið til landsins og líklegt að hægt verði að ná tökum á faraldrinum á fyrri hluta næsta árs.

Þessi heimsfaraldur er þó ekki eini heilsufarsvandinn sem þjóðin glímir við. Ísland glímir við langvarandi geðheilbrigðisvanda. Sjálfsvígstíðni er há, sérstaklega meðal ungra karlmanna, stærstur hluti örorkubóta er vegna geðrænna veikinda og við eigum heimsmetið í notkun þunglyndislyfja. Niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu myndi slá vel á þennan vanda, en þrátt fyrir að frumvarp þess efnis hafi hlotið einróma samþykki Alþingis í vor neitar ríkisstjórnin að fjármagna niðurgreiðsluna.

Örorkubætur vegna geðrænna veikinda kosta ríkissjóð rúma 20 milljarða á ári. Tap samfélagsins mældur í skatttekjum og fleiru sem tapast vegna geðrænna veikinda nemur um 30 milljörðum á ári. Kostnaður samfélagsins er óendanlega mikill þegar hann er mældur í fjölda fólks sem glímir við vanlíðan, tækifærum sem glatast og fjölda sjálfsvíga. Á móti myndi það aðeins kosta um 1.2 milljarða að niðurgreiða sálfræðiþjónustu þannig að hún yrði aðgengileg flestum. Slík niðurgreiðsla er því augljóslega ábyrg fjárfesting af hálfu ríkissjóðs, sem myndi skila sér margfalt til baka. Ríkisstjórnin segist þó ekki vilja fjármagna niðurgreiðsluna vegna þess að það sé of kostnaðarsamt.

Félagsleg einangrun og ástvinamissir síðasta árs hafar haft gífurleg áhrif á andlega líðan fólks og aukið við geðheilbrigðisvandann sem var til staðar fyrir, um það leikur enginn vafi. Þó við sjáum fram á lok þessa heimsfaraldurs verður geðheilbrigðisvandinn enn til staðar og þörfin fyrir sálfræðiþjónustu hefur aldrei verið meiri. Það er ekki til bóluefni við andlegum veikindum.

Nú eru aðeins tveir dagar eftir af undirskriftasöfnun þar sem skorað er á ríkisstjórnina að standa við niðurgreiðsluna og fjármagna hana að fullu. Hér er hægt að skrifa undir.

Höfundur er forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×