Meirihluti í Öldungadeildinni er í húfi.
Í skilaboðum framboðs forsetans til stuðningsmanna hans segir meðal annars að það sé nauðsynlegt að stöðva Demókrata í Georgíu. Repúblikanar þurfi fjármagn frá stuðningsmönnum þeirra.
Stjórnmálamenn í báðum flokkum Bandaríkjanna senda nú út tölvupósta og annarskonar skilaboð í massavís þar sem markmiðið er að safna fjármunum í framboðssjóði í Georgíu.
Gallinn fyrir Repúblikana er þó sá að Trump situr einn á langstærstum hluta þess fjármagns sem hann safnar frá stuðningsmönnum sínum. Landsnefnd Repúblikanaflokksins fær smáan hluta og framboð Repúblikananna tveggja sem eru raunverulega í framboði í Georgíu fá ekkert.
Nánast allir peningarnir fara til svokallaðar pólitískrar aðgerðanefndar sem Trump stofnaði nýverið og heitir Save America. Fjármunina sem Trump kemur fyrir þar ætlar hann að nota til pólitískra aðgerða sinna í framtíðinni.
Þegar framboð Trumps safnaði peningum vegna lagabaráttu Trump-liða til að reyna að snúa niðurstöðum kosninganna, var svipað upp á teningnum. Nánast allir fjármunirnir sem söfnuðust enduðu í sjóðum Save America.
Samkvæmt heimildum Politico hafa háttsettir Repúblikanar sett sig í samband við Hvíta húsið og kvartað yfir þessari fjáröflun forsetans. Hefur þetta aukið á áhyggjur forsvarsmanna flokksins um að Trump muni nota áhrif sín til að bæta eigin stöðu og það jafnvel á kostnað Repúblikanaflokksins.
Einn viðmælandi Politico, sem hefur lengi starfað innan Repúblikanaflokksins, sagði ljóst að Trump væri sama um flokkinn. Ef hann gæti safnað peningum út á aukakosningarnar í Georgíu en haldið þeim sjálfur, þá myndi hann gera það.
Hafa áhyggjur af kjörsókn vegna ásakana
Trump hefur haldið því á loft að hann muni bjóða sig aftur fram til forseta árið 2024, sem hefur komið í veg fyrir að aðrir Repúblikanar geti stigið fram og gert sig líklega til að bjóða sig fram.
Þá hefur Trump einnig gagnrýnt minnst tvo ríkisstjóra Repúblikanaflokksins harðlega á undanförnum vikum, fyrir að hafa ekki stutt ásakanir hans um að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann sigur í forsetakosningunum í síðasta mánuði.
Repúblikanar hafa haft áhyggjur af því að þessar ásakanir, sem hafa reynst innihaldsrýrar, muni draga úr kjörsókn meðal íhaldssamra Bandaríkjamanna í Georgíu.

Niðurstöður nýrrar könnunar í ríkinu þykja sýna að þessar áhyggjur eru ekki gripnar úr lausu lofti. Þar er um að ræða könnun Fox News þar sem spurt var hvort að síðustu forsetakosningarnar hefðu gert svarendur líklegri til að taka þátt í næstu forsetakosningum.
Heilt yfir sögðust 75 prósent aðspurðra að svo væri. Þau væru líklegri til að taka þátt í næstu kosningum. Það er þó mikill munur á því hvaða flokk viðkomandi aðilar styðja. 84 prósent kjósenda Demókrataflokksins sögðust líklegri til að greiða atkvæði í næstu kosningum en einungis 69 prósent stuðningsmanna Repúblikanaflokksins.
Sex prósent demókrata sögðu minni líkur á því að þau myndu greiða atkvæði næst og sextán prósent repúblikana. Á meðal þeirra sem sögðust stuðningsmenn Trumps sögðu 19 prósent að minni líkur væru á áframhaldandi þátttöku þeirra í kosningum.
Samkvæmt frétt Washington Post sýndu niðurstöður könnunnar frá 2016, þar sem sömu spurningar var spurt, engan mun á milli þess hvaða flokk aðspurðir sögðust styðja.