Hollenski miðillinn De Telegraf greinir frá en þar segir að hollenska lögreglan hafi staðfest handtöku á 28 ára karlmanni frá Amsterdam. Um er að ræða Quincy Promes, landsliðsmann Hollands og leikmann Ajax í hollensku úrvalsdeildinni.
Málið snýr að ættarmóti sem haldið var í Abcoude, úthverfi Amsterdam-borgar í haust. Þar mun Promes hafa lent í áflogum við skyldmenni sitt sem endaði með því að fjölskyldumeðlimurinn var stunginn með hníf og hlaut alvarleg meiðsli. Þá ku sá hinn sami einnig hafa meiðst á hné í áflogunum.
Talið er að ættmenni Promes hafi séð til þess að ekki fór verr.
Ekki er víst af hverju lögreglan handtók Promes núna en málið hefur verið á borði hennar undanfarinn mánuð. Promes verður haldið í þrjá daga en hægt er að framlengja gæsluvarhaldið.
Promes hefur leikið 46 leiki fyrir landslið Hollands og leikið með Twente, Spartak Moskvu, Sevilla og Ajax á ferli sínum.