Dýraathvarfið er hugarfóstur tuttugu manna hóps sem lætur sig velferð dýra varða. Hugmyndin kveiknaði árið 2016 en var hrundið af stað nú nýverið þegar senda átti hestinn Snæ í sláturhús.
„Það eru dýr í neyð, bæði villt og tamin, af ýmsum ástæðum eins og með Snæ sem bara vildi ekki verða reiðhestur. Og þá enda hestar oftast bara í sláturhúsi þó þeir séu bara fullfrískir eins og hann, hann er mjög ljúfur og svolítill gæluhestur. Það þarf klárlega dýraathvarf á Íslandi eins og annars staðar,“ segir Valgerður Árnadóttir, einn stofnenda dýraathvarfsins.
Hópurinn hefur einnig skotið skjólshúsi yfir folaldið Líflukku.„Mamma hennar er meri sem Snær hitti rétt eftir að hún eignaðist folaldið sitt og hann tók ástfóstri við þær mæðgur og þau urðu eiginlega svona lítil fjölskylda,“ segir hún.
Athvarfið hefur verið nefnt Líflukka í höfuðið á folaldinu en unnið er að því að finna því varanlegt húsnæði. Þá er söfnun hafin og hægt er að kaupa gjafabréf til styrktar hestunum og athvarfinu.
„Ég mæli með þessari gjöf fyrir dýravini, ef maður veit ekki hvað maður á að gefa dýravininum í jólagjöf,“ segir Valgerður.
Frekari upplýsingar um dýraathvarfið Líflukku má finna á heimasíðu þess.