Í einu tilfelli settist aðstoðarframkvæmdastjóri í helgan stein eftir að hann var sakaður um að káfa á konu. Annar yfirmaður hætti eftir að hafa áreitt minnst átta starfsmenn sína kynferðislega. Einn til viðbótar settist einnig í helgan stein eftir að hann var sakaður um að hafa kúgað unga samstarfskonu sína til kynlífsathafna.
Þetta er meðal dæma sem rannsókn AP fréttaveitunnar hefur leitt í ljós og í öllum þessum tilvikum héldu mennirnir fullum eftirlaunum sínum og öðrum kjörum og var ekkert refsað.
Rannsókn AP sýndi fram á að minnst sex yfirmenn hafa verið sakaðir um kynferðisbrot á síðustu fimm árum. Þar á meðal eru tvær nýjar ásakanir sem litu dagsins ljós í þessari viku þar sem konur segja yfirmenn sína hafa brotið á sér kynferðislega.
Þar eru ekki talin með tilfelli þar sem yfirmenn í FBI hafa ekki gefið upp að þeir hafi átt í sambandi við undirmenn sína. Þeim tilfellum hefur víst farið mjög fjölgandi á undanförnum árum. Svo mikið að rannsakendur hjá innri endurskoðenda FBI hafa lýst yfir áhyggjum af því og kallað eftir stefnubreytingu.
Einn viðmælandi fréttaveitunnar kvartaði yfir því að yfirmaður hennar hefði sleikt hana í framan og káfað á henni í samkvæmi árið 2017. Hún segir kvörtunum sem þessum sópað undir teppið.

Segir mönnum gert kleift að sleppa við refsingu
Lögmaður konunnar sem hefur sakað yfirmann sinn um að kúga sig til kynferðisathafna segir það stefnu meðal yfirmanna FBI að gera stjórnendum sem hafa verið sakaðir um kynferðisbrot kleift að setjast hljóðlega í helgan stein og sleppa þannig við nokkurs konar refsingu.
AP segir einnig að ásakanirnar hafi fangað athygli þingmanna og annarra sem hafa látið þessi mál sig varða. Kallað hefur verið eftir því að utanaðkomandi aðilar verði fengnir til að fara yfir innri rannsóknir FBI og að uppljóstrarar fái ákveðna vernd.
Rúmlega 35 þúsund manns starfa hjá FBI og fréttaveitan segir embættið gefa lítið upp verðandi ásakanir um kynferðislegt ofbeldi.