Viðskipti innlent

Landsbankinn lækkar vexti

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Landsbankinn mun lækka breytilega vexti á íbúðalánum.
Landsbankinn mun lækka breytilega vexti á íbúðalánum. Vísir/Vilhelm

Landsbankinn hefur ákveðið að lækka vexti til einstaklinga og fyrirtækja frá og með 1. desember næstkomandi. Ákvörðunin er tekin eftir stýrivaxtalækkun Seðlabankans í síðustu viku.

Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum, nú annað hvort 3,5 prósent eða 4,5 prósent eftir veðhlutfalli, lækka um 0,20 prósentustig og breytilegir vextir á verðtryggðum íbúðalánum, nú 2 prósent, lækka um 0,10 prósentustig.

Þá lækka kjörvextir óverðtryggðra útlána til fyrirtækja um 0,20 prósentustig og kjörvextir verðtryggðra útlána lækka um 0,10 prósentustig. Yfirdráttarvextir lækka um 0,10-0,25 prósentustig. Innlánsvextir eru ýmist óbreyttir eða lækka um 0,05-0,25 prósentustig.

Breytingarna taka sem fyrr segir gildi þann 1. desember næstkomandi þegar ný vaxtatafla tekur gildi.

Stutt er síðan Landsbankinn hækkaði fasta vexti á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum hjá Landsbankanum um 0,15 til 0,20 prósentustig, þar sem að ávöxtunarkrafa sértryggðra skuldabréfa hafði hækkað umtalsvert frá síðustu vaxtabreytingu, en íbúðalán Landsbankans eru meðal annars fjármögnuð með slíkum skuldabréfum sem bera fasta vexti og eru boðin út á skuldabréfamarkaði.


Tengdar fréttir

Stýrivextir lækka óvænt

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 0,75%






Fleiri fréttir

Sjá meira


×