Innlent

Vill að sér­stakir í­þrótta- og tóm­stunda­styrkir fyrir börn sem búa á tekju­lægri heimilum verði fram­tíðar­úr­ræði

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra vonar að sérstakir íþrótta- og tómstundastyrkir fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum verði í boði til frambúðar. 

Í gær var opnað fyrir umsóknir á sérstökum íþrótta- og tómstundastyrkjum fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum. Styrkirnir koma til viðbótar hefðbundnum íþrótta- og tómstundastyrkjum sveitarfélaga. 

Hægt er að sækja um styrk fyrir börn sem fædd eru á árunum 2005–2014 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 740.000 krónur á mánuði. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti aðgerðina í vor og er hún hluti af aðgerðapakka vegna kórónuveirufaraldursins.

„Þetta er auðvitað algjör nýjung að ríkisvaldið sé að koma inn með þessum hætti, á erfiðum tímum að koma inn í íþrótta- og tómstundastarf með þessum stuðningi,“ segir Ásmundur Einar. 

Á landsvísu verður um 900 milljónum króna varið í verkefnið árin 2020 og 2021. „Við vorum einfaldlega að forma okkur og þróa okkur áfram með þessar fjárveitingar sem við höfðum á yfirstandandi ári sem voru 600 milljónir og svo 300 milljónir á næsta ári og töldum mikilvægt að það væri hægt að koma inn gagnvart þessum árgöngum,“ segir Ásmundur. 

Ásmundur segist sjá þessa aðgerð fyrir sér sem framtíðarúrræði. „Til þess að tryggja börnum möguleika á því að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi óháð fjárhagslegri afkomu foreldra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×