Dómstóll í Finnlandi dæmdi í dag hinn 26 ára Joel Marin í lífstíðarfangelsi fyrir morð á einum og tuttugu tilraunir til morðs í starfsmenntamiðstöð í borginni Kuopio í október á síðasta ári.
Marin notaðist við sverð þegar hann réðst á samnemendur sína í Savolax-starfsmenntamiðstöðinni í verslunarmiðstöðinni Herman, suður af miðborg Kuopio.
YLE segir frá því að ung kona frá Úkraínu, sem stundaði þar nám, hafi látið lífið í árásinni, auk þess að mikill fjöldi hafi særst.
Marin særðist sjálfur eftir að lögreglumenn höfðu skotið hann í fótinn, þegar hann var yfirbugaður. Verjandi Marin segir skjólstæðing sinn hafa ætlað sér að deyja í árásinni.
Í dómsorðum kemur fram að talið hafi verið að Marin væri sakhæfur og sagði saksóknari hann hafa undirbúið árásina í um eitt ár. Réttarhöld hófust fyrir rúmum tveimur mánuðum.
Kuopio er að finna um 350 kílómetrum norður af Helsinki, höfuðborg Finnlands.