Búið er að lækka hámarkshraða á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi vegna undirbúnings framkvæmda við breikkun vegarins. Er hámarkshraðinn þar nú 70 km/klst, en hefur verið 90.
Þetta staðfestir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við Vísi. Segir hann að nú sé verið að koma upp skiltum og fleiru til að framkvæmdir geti þar hafist fyrir alvöru.
Í frétt Stöðvar 2 frá í ágúst kom fram að í þessum fyrsta áfanga eigi að breikka fjögurra kílómetra kafla Vesturlandsvegar frá Varmhólum að Vallá í 2+1 veg með aðskildum akbrautum. Alls stendur þó til að breikka níu kílómetra kafla frá Varmhólum og að vegamótum Hvalfjarðarvegar.
Einnig stendur til að gera hringtorg við Móa og tvenn undirgöng, við Varmhóla og Saltvík, sem og hliðarvegi, áningarstað og stíga.
Vegagerðin samþykkti tilboð Ístaks í verkið, en það var fjórum prósentum yfir kostnaðaráætlun og hljóðaði upp á 2.226 milljónir króna.