Þór Ak. fór fram á það við KKÍ að leiknum gegn Keflavík í Domino's deild karla í kvöld yrði frestað en beiðninni var hafnað.
Sóttvarnayfirvöld hafa hvatt íþróttafélög til að gera hlé á æfingum og keppni fyrir börn og fullorðna næstu tvær vikurnar vegna kórónuveirufaraldursins. Þá eru íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu hvött til þess að fresta öllum keppnisferðum út á land. Þrátt fyrir það sagði Snorri Örn Arnaldsson, mótastjóri KKÍ, við Vísi að leikurinn á Akureyri í kvöld færi fram.
„Hvorugt liðið er á höfuðborgarsvæðinu og Keflvíkingar voru komnir langleiðina til Akureyrar þegar þessar fréttir bárust. Dómararnir voru líka komnir upp í flugvél. Við tilkynnum það sérstaklega ef þetta breytist,“ sagði Snorri.
„Þór fór fram á frestun en því var neitað,“ sagði Hjálmar Pálsson, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs, í samtali við Vísi. Honum finnast útskýringar KKÍ, að Keflvíkingar hafi verið komnir langleiðina til Akureyrar og dómararnir á leið upp í flugvél, ekki halda vatni.
„Mér finnast þetta aumar afsakanir. Við erum mjög ósáttir og finnst þetta óábyrgt. Við fórum fram á frestun fyrir hádegi og mér skilst að Keflvíkingar hafi lagt af stað rúmlega klukkan 11:00 þannig að þeir voru væntanlega ekki einu sinni komnir í gegnum Reykjavík þegar við fórum fram frestunina þannig að afsakanirnar sem koma fram í viðtalinu standast engin rök.“
Stjórn KKÍ og mótanefnd funda síðdegis, eftir upplýsingafund almannavarna.
En á Hjálmar von á því að leiknum í kvöld verði frestað?
„Þrátt fyrir að þeir geti það hef ég enga trú á að þeir geri það,“ svaraði Hjálmar. Hann segir að líklega verði forföll í liði Þórs í kvöld.
„Það verða væntanlega 1-2 leikmenn hjá okkur sem ætla ekki að taka þátt í leiknum. Svo höfum við þurft að redda nýjum aðila á ritaraborðið sem vill ekki vera. Þetta er svo mikið bull. Við erum mjög fúl yfir þessu,“ sagði Hjálmar.
Viðureign Þórs Ak. og Keflavíkur átti að fara fram á föstudaginn en var frestað vegna þess að nokkrir Keflvíkingar voru í sóttkví fram yfir leikdag. Einn leikmaður Keflavíkur er enn í sóttkví.