Innlent

Smit greindist í Listaháskólanum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Að öllu óbreyttu opnar LHÍ aftur á mánudag.
Að öllu óbreyttu opnar LHÍ aftur á mánudag. Vísir/Vilhelm

Kórónuveirusmit er komið upp í einu sóttvarnahólfa Listaháskóla Íslands, að því er fram kemur í tilkynningu frá Fríðu Björk Ingvarsdóttur rektor. Tilkynningin birtist á vef skólans. Neyðaráætlun háskólans hefur verið virkjuð og smitrakningateymi Almannavarna hefur gripið til viðeigandi ráðstafana.

Í tilkynningu kemur fram að búið sé að hafa samband við alla sem málið varðar. Viðkomandi einstaklingar séu komnir í sóttkví og hafi fengið fyrirmæli um sóttvarnir og önnur öryggisatriði er varði heilsu þeirra.

„Af þessu tilefni vil ég enn og aftur brýna fyrir okkur öllum mikilvægi þess að fara varlega og sýna ábyrgð í okkar persónulegu smitvörnum og umgengni. Jafnfram er ítrekað að allir fundir, fyrirlestrar og viðburðir skuli fara fram með rafrænum hætti sé þess nokkur kostur og að fólk haldi sig innan sinna sóttvarnarhólfa,“ segir í tilkynningu rektors.

Þá kemur fram að húsnæði LHÍ verði að öllu óbreyttu opnað á mánudaginn næstkomandi. Húsakynnum skólans var lokað í gær vegna fjölgunar smita í samfélaginu, sem mörg tengjast háskólastarfi.

„Listaháskóli Íslands er stór vinnustaður og viðbúið að grípa þurfi til ýmissa ráðstafana af og til á meðan heimsfaraldurinn stendur. Óvissan reynir bæði á nemendur og starfsfólk og því vil ég hvetja ykkur öll til að sýna slíkum ráðstöfunum tillitssemi og skilning og skapa þannig samstöðu um þær aðgerðir sem skipta okkur öll svo miklu máli,“ skrifar rektor og hvetur alla til að huga vel að heilsu sinni og njóta helgarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×