Viðskipti innlent

Til­boð í Lauga­veg 31 sam­þykkt af kirkju­ráði

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Biskupsstofa var til húsa við Laugaveg 31 þar til hún flutti í Katrínartún síðasta haust. 
Biskupsstofa var til húsa við Laugaveg 31 þar til hún flutti í Katrínartún síðasta haust.  Vísir/Hanna

Kirkjuráð hefur samþykkt tilboð í fyrrum húsnæði Biskupsstofu við Laugaveg 31. Nokkrir fyrirvarar eru á tilboðinu, meðal annars um fjármögnun en síðar í þessum mánuði skýrist hvort af kaupunum verði. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið.

Verð sem sett hefur verið á eignina er 570 milljónir en ekki liggur fyrir hver gerði tilboðið sem kirkjuráð samþykkti. Lengi hefur Þjóðkirkjan reynt að selja húsið við Laugaveg 31 en fyrir þremur árum síðan bárust nokkur tilboð í eignina en þeim var öllum hafnað, þar á meðal var staðgreiðslutilboð frá M3 Capital ehf.

Skiptar skoðanir voru í kirkjuráði á sínum tíma, greiddu þrír atkvæði með því að tilboðinu yrði hafnað, einn sat hjá og einn greiddi á móti og vildi selja húsnæðið.

Húsnæðið hefur ekki verið í notkun í um ár eftir að Biskupsstofa flutti alla sína starfsemi í Katrínartún og lá þá endanlega fyrir að selja þyrfti húsið. Í lok janúar samþykktu allir kirkjuráðsmenn að setja húsið á sölu nema Agnes Sigurðardóttir biskup sem er forseti kirkjuráðs. Húsið var svo nokkrum dögum síðar auglýst til sölu.

Húsið hefur ætíð verið talið einstaklega veglegt en það er 1.540 fermetrar að stærð og eru upphleyptar myndir af gríska guðinum Hermesi á svölum hússins. Húsið var teiknað af Einari Erlendssyni húsameistara fyrir Martein Einarsson kaupmann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×