Hljóðið var gott í Eiði Smára Guðjohnsen, öðrum þjálfara FH, eftir sigurinn á Stjörnunni, 3-0, í Mjólkurbikarnum í dag.
„Á köflum vill maður alltaf meira og ég vil alltaf að við spilum boltanum betur á milli okkar en frammistaðan í heild sinni var frábær,“ sagði Eiður við Vísi eftir leik.
En hvað var hann sáttastur með í leik FH-liðsins?
„Við vorum bara tilbúnir í þennan leik. Við unnum návígin og þegar það var pressa á okkur stóðumst við hana vel. Liðsheildin er það sem stendur upp úr í dag,“ svaraði Eiður.
Ólafur Karl Finsen skoraði sitt fyrsta mark fyrir FH í dag, gegn sínum gömlu félögum í Stjörnunni. Eiður er sáttur með að Ólafur Karl sé kominn á blað fyrir FH.
„Auðvitað. Sem þjálfari vill maður alltaf að framherjarnir sínir skori. Hann var virkilega duglegur og sýnir okkur daglega að hann er að komast í topp stand. Hann verður drjúgur fyrir okkur eins og margir aðrir,“ sagði Eiður.
Jónatan Ingi Jónsson var borinn af velli þegar um 20 mínútur eftir að hafa lent í samstuði.
„Fyrir það fyrsta var hann frábær í leiknum. Það var smá sjokk þegar við sáum hann liggja eftir. Í fyrstu höldum við að þetta hafi verið heilahristingur,“ sagði Eiður.
„Meira er ekki vitað að svo stöddu en vonandi fáum við bara góðar fréttir af honum.“