Bandarísk stjórnvöld hafa afturkallað landvistarleyfi fyrir rúmlega eitt þúsund kínverska námsmenn í landinu.
Umræddir námsmenn eru taldir ógna þjóðaröryggi en farið var í aðgerðirnar í kjölfar yfirlýsinga Donalds Trump forseta í vor þar sem hann fullyrti að kínverskir námsmenn hefðu stolið gögnum og hugverkum í Bandaríkjunum og að margir þeirra væru í nánum tengslum við kínverska herinn.
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur ekki gefið frekari upplýsingar enn sem komið er og kínversk stjórnvöld hafi heldur ekki tjáð sig um málið, að því er fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins um málið.
Um 370 þúsund kínverskir námsmenn voru skráðir í bandaríska háskóla skólaárið 2018 til 2019. Talskona utanríkisráðuneytisins segir að stúdentarnir þúsund hafi verið metnir sem ógn við þjóðaröryggi en bætir við að alvöru kínverskir námsmenn séu enn velkomnir til Bandaríkjanna til náms.