Innlent

Breyta verk­ferlum eftir að starfs­maður braut gegn fatlaðri konu

Sylvía Hall skrifar
Í febrúar árið 2019 vaknaði grunur um að starfsmaður velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hefði brotið á ungri fatlaðri konu.
Í febrúar árið 2019 vaknaði grunur um að starfsmaður velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hefði brotið á ungri fatlaðri konu. Vísir/Vilhelm

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar harmar að starfsmaður skammtímavistunar fyrir fatlað fólk hafi brotið gegn ungri fatlaðri konu. Málið kom upp í febrúar á síðasta ári og var maðurinn, sem er tæplega fimmtugur, dæmdur í átta mánaða fangelsi í héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni.

RÚV greindi frá málinu í fréttum í gær þar sem kom fram að maðurinn hafi misnotað aðstöðu sína og skipað konunni að fara í sturtu. Þá hafi hann þvegið henni, til að mynda á brjóstum og kynfærum, en konan hafði aldrei þurft aðstoð við slíkt.

Í yfirlýsingu frá Reykjavíkurborg kemur fram að allir verkferlar hafi verið yfirfarnir og endurskoðaðir. Nú megi aðeins starfsmenn aðstoða notendur af sama kyni og skýr kynjaskipting hafi verið tekin upp. Þá hafi tómstundastarf verið skipulagt upp á nýtt svo það sé minna um að starfsmenn séu einir með notendum skammtímavistunar.

„Allir aðstandendur þeirra sem dvöldu á Holtavegi á þeim tíma sem grunur vaknaði um brot voru upplýstir um málið og þeir hvattir til að hafa samband við lögreglu ef þeir hefðu minnsta grun um að eitthvað hefði komið fyrir þeirra barn eða ungmenni í skammtímavistuninni,“ segir í yfirlýsingunni.

Reykjavíkurborg segir dóminn sögulegan sigur í réttindabaráttu fatlaðra kvenna. Velferðarsviðið hafi dregið lærdóm af málinu og muni gera breytingar í samræmi við það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×