Skoðun

Plast­leysi - er það eitt­hvað?

Þórdís V. Þórhallsdóttir skrifar

Síðustu ár höfum við fjölskyldan verið að færa okkur meira og meira í umhverfisvæna átt. Við höfum tekið þetta í nokkrum skrefum og þegar Plastlaus september byrjaði árið 2017, notuðum við tækifærið og prófuðum allskonar vörur og settum okkur markmið til að prófa næstu ellefu mánuði á eftir, eða áður en Plastlaus september kæmi upp aftur.

Þetta höfum við svo gert síðan. Ekkert átak, sama í hverju það felst, virkar er maður ætlar að taka það með trukki á núll einni. Við ákváðum í byrjun t.d. að muna alltaf eftir fjölnotapokunum okkar, líka fyrir grænmetið. Kaupa pappírs- eða bambuseyrnapinna, prófa sjampóstykki og bambustannbursta, fylla á sápuna okkar sjálf, kaupa túrnærbuxur og tannkremstöflur. Í öllum tilvikum kláruðum við fyrst það sem við áttum hér heima. Stundum vorum við ekki glöð með vöruna, t.d. þurfum við að prófa nokkra bambustannbursta áður en við fundum bambustannbursta sem við vildum halda áfram að kaupa. Sama átti við um sjampóstykkin.

Svo settum við okkur ný markmið árið eftir, prófuðum eitthvað nýtt. Stundum er markmiðið líka að gefa gjafir sem falla í plastlausan flokk, pakka inn í gömul blöð eða landakort, gefa upplifanir eða pening í stað hluta.

Þrátt fyrir að hafa unnið að því markvisst að minnka plast síðustu þrjú ár, er plastruslatunnan okkar samt sú sem fyllist hraðast. Helstu sökudólgarnir þar eru matvæli sem oft eru margpökkuð, í pappír og í eitt eða tvö lög af plasti. Má þar helst nefna morgunkorn, kex og grænmeti. Við kaupum kaffi í pokum sem flokkast með pappír og reynum að beina viðskiptum okkar í plastlausan farveg þar sem það er hægt. Það er nefnilega þannig að í hvert sinn sem við notum peninga erum við að kjósa í hvernig heimi við ætlum að lifa.

Ég vona að þið setjið ykkur nokkur plastlaus markmið og fylgið þeim eftir, endurskoðið og prófið ykkur áfram. Gerið plastlausan september að upphafspunktinum að því að breyta til hins betra.

Höfundur er í framkvæmdashóp um Plastlausan september.




Skoðun

Sjá meira


×