Stjarnan fékk góðan liðsstyrk á lokadegi félagaskiptagluggans í gær þegar Málfríður Erna Sigurðardóttir gekk til liðs við Garðbæinga frá Val.
Málfríður þrautreynd og hefur átt afar farsælan feril. Hún hefur alls sjö sinnum orðið Íslandsmeistari, sex sinnum með Val og einu sinni með Breiðabliki.
Málfríður, sem er 36 ára, kom við sögu í sjö leikjum með Val á þessu tímabili, sex í Pepsi Max-deildinni og einum í Mjólkurbikarnum.
Auk Málfríðar fékk Stjarnan kanadíska markvörðinn Erin McLeod og ítalska framherjann Angelu Piu Caloia í félagaskiptaglugganum.
Málfríður er einn leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi með 243 leiki. Þá lék hún 33 landsleiki á sínum tíma.
Stjarnan er í 6. sæti Pepsi Max-deildarinnar með ellefu stig eftir ellefu leiki. Málfríður gæti leikið sinn fyrsta leik í búningi Stjörnunnar þegar liðið sækir bikarmeistara Selfoss heim á sunnudaginn.