Innlent

Listaháskólinn verður settur fjórum sinnum

Andri Eysteinsson skrifar
Eitt af húsnæðum LHÍ, skólasetningin fer þó ekki fram hér.
Eitt af húsnæðum LHÍ, skólasetningin fer þó ekki fram hér. Vísir/Vilhelm

Starfsár Listaháskólans hefst á morgun og það með óhefðbundnum hætti sökum COVID-19 faraldursins. Skólinn verður settur í fjögur skipti af Fríðu Björk Ingvarsdóttur rektor.

Athafnirnar munu fara fram í Sviðslistastúdíóinu í húsnæði skólans í Laugarnesi en um er að ræða stærsta sal skólans. Hefur skólanum verið skipt upp í sóttvarnahólf og hafa nýnemar verið boðaðir á athafnir með samnemendum úr sama sóttvarnarhólfi.

Milli athafna sem fara fram á milli klukkan 10:00 og 12:15 verður salurinn og sótthreinsifletir sótthreinsaðir. Þá hafa verið útbúin sérstök kynningarmyndbönd til að fækka viðveru starfsmanna í skólanum.

Hollnemi Listaháskólans mun samkvæmt hefð ávarpa nýnema en í ár hlotnast Halldóri Laxness, Dóra DNA, sá heiður. Hann mun þó ekki vera á staðnum heldur ávarpar hann nýnema af myndbandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×