Útibú Netflix á Bretlandi og Írlandi svaraði samsæriskenningasmið á Twitter í dag sem hafði kastað fram kenningu um tengsl kvikmyndar Will Ferrell um Eurovision við sigur Daða og Gagnamagnsins í Söngvakeppninni síðastliðinn laugardag.
„Við munum ekki tjá okkur um slúður eða getgátur,“ stóð í svari streymisveitunnar við tísti @jrawson. Sá birti í gær mynd af meintu skjali frá Netflix þar sem fram kemur markaðsáætlun fyrir kvikmyndina Eurovision sem grínistinn Will Ferrell skrifaði og leikur í. Taka skal þó fram að textinn í skjalinu er þannig upp settur að hann virðist vera vangaveltur og frekar grín „samsæriskenningasmiðsins“ frekar en nokkuð annað.
Við deilinguna skrifar hann: „Einhver frá @netflix lak þessu. Þetta er risastórt. Útskýrir allt.“
We will not comment on rumour or speculation. https://t.co/z8PVWtfnWd
— Netflix UK & Ireland (@NetflixUK) March 3, 2020
Skjalið er merkt Netflix og kvikmyndinni Eurovision og kemur fram þar að þetta sé markaðsáætlun fyrir myndina. Þá virðist stimpill í hægra horni sem á stendur að skjalið sé trúnaðargögn.
„29. febrúar 2020 – Tryggja að Daði verði fyrir tækniörðugleikum í íslensku lokakeppninni, sem tryggir honum vorkunnaratkvæði og að lokum sigur,“ stendur í skjalinu.
Fyrsta skrefið í þessari „áætlun“ á þó að hafa verið tekið árið 2014 með stofnun Twitter-aðgangsins @robholley og á tilgangur þess að hafa verið sá að fjalla um Eurovision fyrir nokkra stóra miðla í nokkur ár áður en hann deildi myndbandi af lagi Daða.
Þá hafi næsta skref í þessari áætlun verið að fá Russell Crowe, Rylan Clark-Neal og Robert Peston til að deila laginu í skiptum fyrir eigin Netflix seríur.
Aðrir áætlunarliðir eru meðal annars að fá Gretu Thunberg til að dansa dansinn við Think About Things á blaðamannafundi hjá Sameinuðu þjóðunum ásamt Angelu Merkel, Þýskalandskanslara, og Jimmy Carter, stjórnmálamanni, og að Meghan Markle og Harry Bretaprins skyldu tilkynna að þau ættu von á öðrum dreng og hann skyldi nefndur Daði. Þetta á, samkvæmt plagginu, að vera auglýsingaherferðin fyrir Eurovision kvikmyndina.