Martin Hermannsson hefur farið mikinn síðustu vikur og í kvöld skoraði hann 17 stig gegn stórliði Barcelona í EuroLeague.
Martin var stigahæstur í liði Alba Berlín sem varð að sætta sig við naumt tap, 84-80, eftir að hafa verið yfir um tíma í jöfnum lokafjórðungi leiksins. Martin átti þrjár stoðsendingar í leiknum og tók tvö fráköst en hefur reyndar oft nýtt skotin sín betur en í kvöld þó að stigin hafi verið 17, enda andstæðingurinn afar sterkur.
Alba Berlín hefur unnið níu af 27 leikjum sínum og er í 16. sæti af 18 liðum EuroLeague, bestu félagsliðakeppni evrópsks körfubolta, en Barcelona er öruggt inn í úrslitakeppnina og situr í 3. sæti með 21 sigur.
Haukur Helgi Pálsson og félagar í Unics Kazan töpuðu á útivelli gegn Monaco í Evrópubikarnum, nokkurs konar B-keppni EuroLeague en þessar keppnir eru ekki á vegum körfuknattleikssambands Evrópu. Monaco vann 85-60 en Haukur skoraði 4 stig og tók 1 frákast í leiknum.
Í Meistaradeild Evrópu, sem er á vegum FIBA, var Tryggvi Snær Hlinason á ferðinni með Zaragoza sem vann Lietkabelis frá Litháen, 76-67. Tryggvi skoraði sex stig í leiknum og tók fjögur fráköst. Þetta var fyrsti leikur liðanna í 16-liða úrslitum en vinna þarf tvo leiki til að komast áfram.
