Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson vakti athygli á því á samfélagsmiðlum sínum í gær að hann hafi náð að spila með syni Brenton Birmingham.
Logi og Róbert Sean Birmingham spiluðu þá saman æfingarleik með meistaraflokki Njarðvíkur en Njarðvíkurliðið er að halda sér við í löngu hléi vegna bikarúrslita og landsleikja.
Brenton Birmingham er einn af bestu bandarísku körfuboltamönnunum sem komið hafa hingað til lands. Brenton fékk seinna íslenskt ríkisfang og býr enn á Íslandi þótt að körfuboltaskórnir séu löngu komnir upp á hillu.
„Ég spilaði leik í kvöld með Róbert Birmingham. Ég og pabbi hans Brenton unnum marga titla saman. Þegar Róbert fæddist var ég búinn að spila 7 ár í meistaraflokki, það eru 23 ár á milli okkar,“ skrifaði Logi á Instagram síðu sína eins og sjá má hér fyrir neðan.
Róbert Sean Birmingham, sem er enn bara fimmtán ára gamall (fæddur í september 2004), hefur verið í unglingalandsliðum Íslands og er nú farinn að banka á dyrnar í meistaraflokkmnum.
Logi Gunnarsson og Brenton Birmingham voru meðal annars allt í öllu þegar Njarðvíkingar unnu tvo Íslandsmeistaratitla í röð frá 2001 til 2002.
Í leiknum þar sem Njarðvík tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn 2001 á Króknum þá var Brenton Birmingham með fjórfalda tvennu (28 stig, 10 fráköst, 11 stoðsendingar og 10 stolna bolta) og Logi Gunnarsson skoraði 30 stig.
Í leiknum þar sem Njarðvík tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn 2002 í Keflavík þá var Brenton Birmingham með 21 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar en Logi Gunnarsson bætti við 19 stigum, 5 stoðsendingum og 3 stolnum boltum.
Þeir Brenton og Logi urðu einnig bikarmeistarar árið 2002 eftir sigur á KR í Laugardalshöllinni. Brenton Birmingham var með 25 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar í bikarúrslitaleiknum og Logi Gunnarsson skoraði 22 stig.