Ítölsk stjórnvöld hafa gripið til sérstakra neyðaraðgerða til að bregðast við mestu útbreiðslu COVID19-veirunnar í Evrópu til þessa.
Giuseppe Conte forsætisráðherra landsins kynnti áætlunina í gærkvöldi eftir að staðfest var að 79 hafi smitast af veirunni í landinu og tveir látist.
Samkvæmt áætlun yfirvalda hafa íbúar í tólf bæjum í Langbarðalandi (í. Lombardy) og Venetó verið beðnir um að halda kyrru fyrir heima. Í bæjunum sem um ræðir búa um 50 þúsund manns.

Conte sagði að á þessum skilgreindu svæðum yrði fólki meinað að yfirgefa bæina og sömuleiðis væri bannað að fara þangað, nema með sérstöku leyfi yfirvalda. Er búið að aflýsa kennslu í skólum og íþróttaviðburðum, þar með talið nokkrum leikjum í Serie A, efstu deild ítalska fótboltans.
Samkvæmt áætlun yfirvalda verður ítalski herinn lögreglu innan handar við að tryggja að farið sé að reglum áætlunar yfirvalda.
COVID19-smit hafa nú greinst í alls 26 ríkjum heims. Alls hafa 2.348 manns látið lífið af völdum veirunnar í Kína og ellefu í öðrum ríkjum. Í Kína hafa um 77 þúsund manns smitast af veirunni.