Sara Sigmundsdóttir endaði í öðru sæti á Wodapalooza CrossFit mótinu í Miami sem lauk í nótt. Enginn náði að stoppa heimsmeistarann Tiu-Clair Toomey.
Með þessu endaði glæsileg sigurganga Söru en hún hefur jafnframt aldrei náð að vinna Tiu-Clair Toomey í keppni. Góðu fréttirnar eru þær að Tia hefur aldrei þurft að hafa jafnmikið fyrir sigri á Söru.
Það munaði á endanum bara 38 stigum á þeim tveimur og Sara var síðan með 46 stiga forskot á þriðja sætið þar sem endaði Kari Pearce. Toomey hefur verið að vinna með yfirburðum upp á síðkastið og það verður því fróðlegt að sjá hvort Sara getur nálgast hana enn frekar áður en kemur að heimsleikunum í haust.
View this post on Instagram
Tia-Clair Toomey var aðeins sextán stigum á undan Söru fyrir lokadaginn en sýndi styrk sinn með því að vinna síðustu tvær greinarnar. Sara endaði í fjórða sæti í þeirri fyrri en í öðru sæti í lokagreininni.
Tiu-Clair Toomey náði að vinna fjórar greinar á mótinu en Sara vann eina. Sara varð aftur á móti þrisvar sinnum í öðru sæti.
Sara náði því inn á verðlaunapall Wodapalooza CrossFit mótinu annað árið í röð en um leið tókst henni að hækka sig um eitt sætið því hún varð þriðja í fyrra.
Níu efstu höfðu tryggt sér þátttökurétt á heimsleikunum í ágúst og því fór farseðillinn á þessu móti til hinnar kanadísku Emily Rolfe sem endaði í tíunda sæti. Þuríður Erla Helgadóttir náði fimmtánda sætinu en hún var tólf stigum frá fjórtánda sætinu.
Íslenska sveitin Team Suðurnes endaði í þrettánda sæti í Rx liðakeppninni.
Ingunn Lúðvíksdóttir náði fjórða sætinu í flokki 40 til 44 ára og var aðeins 28 stigum frá því að komast á pall.
Alma Hrönn Káradóttir endaði í 18. sæti í aldursflokki 35 til 39 ára og Rökkvi Guðnason varð níundi í flokki 13 til 15 ára pilta.
View this post on InstagramWHAT A WEEKEND! Here is your final WZA 2020 Elite leaderboard! Congrats, athletes!