Innlent

Best að reikna með því versta

Jóhann K. Jóhannsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.
Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra. Vísir/ARNAR

Verst hefur ástandið verið í nótt á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Þar hefur verið bálkvast og foktjón. Ekki er vitað til þess að slys hafi orðið á fólki. Þetta sagði Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, um klukkan sex í morgun, þegar hann átti von á að veðrið færi að versna á höfuðborgarsvæðinu.

Hjálmar sagði best að reikna með því versta.

„Það er þá bara bónus ef það verður aðeins minna. Ég held að fólk megi gera ráð fyrir því að það verði mjög vont veður hérna.“

Hann sagði fólk vera að fara eftir viðvörunum og það væri hið besta mál að stofnanir og fyrirtæki séu lokuð á meðan versta veðrið gengur yfir. Það dragi úr útköllum hjá viðbragðsaðilum.

„Ég bara bið fólk um að taka tillit til þessara viðvarana og hafa það bara náðugt heima fyrir og fá sér góðan morgunmat,“ sagði Hjálmar.

Hann sagði eitthvað hafa borist af útköllum á Suðurlandi vegna foktjóns þar sem bárujárn hafi til að mynda byrjað að losna. Þá sagðist Hjálmar vonast til þess að verktakar á höfuðborgarsvæðinu hafi tekið fyrirmælum um að fest niður það sem hægt væri.

Hjálmar sagðist vita til þess að truflun hafi orðið á raforkukerfinu í Vík í nótt en eftir því sem hann viti, þá hafi verið bætt úr því.

22 ferðamenn héldu til í fjöldahjálparstöð í Vík í nótt og Hjálmar sagði stöðuna þar þokkalega. Farið hafi vel um alla. Fólki hafi verið komið í húsaskjól og það fengið vistir og fleira. Þá hvatti Hjálmar Íslendinga til að fylgjast með færð á vegum og veðrinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×