Þýska lögreglan handtók tólf grunaða hægriöfgamenn á föstudag sem eru grunaðir um að hafa lagt á ráðin um samhæfðar árásir til að valda pólitískri ringulreið. Árásirnar eru sagðar hafa átt að beinast að stjórnmálamönnum, hælisleitendum og múslimum.
Reuters-fréttastofan segir að fjórir mannanna séu grunaðir um að hafa stofnað hægriöfgahryðjuverkasamtök í september en hinir átta um að hafa fjármagnað starfsemina. Dómari úrskurðaði mennina, sem voru handteknir í sex sambandslöndum, í gæsluvarðhald í gær.
Mennirnir eru á aldrinum tuttugu til fimmtíu ára en samtökin sem þeir stofnuðu nefnast „Harðkjarninn“ (þ. Der harte Kern). Þeir kynntust í gegnum samskiptamiðilinn Whatsapp sem er í eigu samfélagsmiðlarisans Facebook. Yfirvöld höfðu fylgst með hópnum frá því síðla sumars í fyrra. Lögreglumenn eru sagðir hafa fundið efni sem hefði verið hægt að nota til að búa til sprengjur í húsleitum sem tengdust handtökunum.
Stuðningur við hægriöfgahópa hefur farið vaxandi í Þýskalandi undanfarin misseri, sérstaklega í því sem var áður Austur-Þýskaland.