Innlent

Lagði hald á nokkur vopn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alls komu fimmtíu mál inn á borð lögreglu frá því klukkan fimm í gær og þar til fimm í morgun.
Alls komu fimmtíu mál inn á borð lögreglu frá því klukkan fimm í gær og þar til fimm í morgun.

Lögregla lagði hald á nokkur vopn er hún stöðvaði ökumann í Árbæ í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Ökumaðurinn var handtekinn en látinn laus að lokinni sýna- og skýrslutöku, að því er segir í dagbók lögreglu.

Lögregla handtók mann seint á fjórða tímanum í nótt í Vesturbæ Reykjavíkur. Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi verið „mjög ölvaður“ og verið með ónæði og háreysti þar sem hann gekk á miðri akbraut. Maðurinn var vistaður í fangageymslu eftir að „vægari úrræði dugðu ekki til“, líkt og segir í dagbók lögreglu.

Þá óskaði starfsfólk fjögurra verslana óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar. Í einu tilvikinu hljóp þjófurinn út með fulla körfu af vörum en fannst skömmu síðar. Hann var laus að lokinni skýrslutöku á vettvangi.

Starfsfólk vínveitingastaðar á höfuðborgarsvæðinu óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna fólks með dólgslæti, sem m.a. hafði brotið glas. Einn neitaði að yfirgefa staðinn og veitti mótspyrnu við handtöku. Hann var vistaður í fangageymslu.

Einnig var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna manns í annarlegu ástandi sem svaf í strætó í Garðabæ. Maðurinn var vistaður í fangageymslu þar til ástand hans lagast.

Þá rannsakar lögregla tilraun til innbrots í heimahús í Breiðholti. Í dagbók lögreglu segir að málið sé í rannsókn og unnið eftir vísbendingum.

Alls komu fimmtíu mál inn á borð lögreglu frá því klukkan fimm í gær og þar til fimm í morgun. Sex gistu fangageymslu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×