Einn af mestu tilþrifakörlum NBA-deildarinnar í körfubolta gæti orðið leikmaður Los Angeles Lakers áður en glugginn lokar ef marka má sögusagnir úr NBA heimum.
Los Angeles Lakers er í góðum málum í NBA-deildinni enda með besta sigurhlutfallið í Vesturdeildinni með 34 sigra og aðeins níu töp. Liðið vill samt styrkja sig áður en glugginn lokar í febrúar.
Jonathan Kiernan hjá Lake Show Life sagði frá mögulegum leikmannaskiptum Lakers og Chicago Bulls.
Lakers fengi þá háloftafuglinn Zach LaVine í staðinn fyrir pakka af leikmönnum sem innihéldi Kyle Kuzma, Danny Green og Talen Horton-Tucker.
A deal proposed by Fansided‘s Lake Show Lifehttps://t.co/hurfEFTlVY
— NBA Central (@TheNBACentral) January 22, 2020
Zach LaVine er vissulega spennandi leikmaður enda einn besti íþróttamaðurinn í allir NBA-deildinni. Hann er með mjúkt skot og skilur menn ítrekað eftir í sporunum með sprengikrafti sínum.
Það er vissulega dýrt að sjá á eftir mönnum eins og þeim Kyle Kuzma og Danny Green. En samkvæmt pælingum Jonathan Kiernan þá ætti sóknarleikur liðsins að verða enn illviðráðanlegri með komu Zach LaVine.
Zach LaVine er með 25,0 stig, 4,7 fráköst og 3,9 stoðsendingar að meðaltali á þessu tímabili en hann er að skora 3,1 þrist í leik og er að nýta 39 prósent skota sinna fyrir utan þriggja stiga línuna. Hann er líka ennþá bara 24 ára gamall og á því mörg frábær ár eftir.
Kyle Kuzma er með 13,2 stig og 3,9 fráköst að meðaltali í leik á þessu tímabili en Danny Green er með 9,0 stig og 3,6 fráköst að meðaltali í leik í vetur.