Forstjóri Icelandair segir ljóst að breytingar á skimunarfyrirkomulagi á landamærunum muni draga úr ferðavilja fólks og þar af leiðandi muni ferðamönnum sem koma hingað til lands á næstunni fækka. Í dag var tilkynnt að frá og með næsta miðvikudegi muni allir sem koma hingað til lands þurfa að sæta sýnatöku tvisvar, með nokkurra daga sóttkví á milli.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að síðan í vor hafi stjórnendur búið sig og félagið undir aðstæður líkar þeim sem nú eru komnar upp.
„Við höfum búið félagið undir svona aðstæður allt frá því í vor. Að þetta ástand gæti varað í allmarga mánuði, að það kæmu jákvæðar og neikvæðar fréttir á víxl og við yrðum í tiltölulega lítilli framleiðslu allt fram á næsta vor,“ sagði Bogi í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Hann segir að breytingarnar hafi ekki teljandi áhrif á langtímaáætlanir félagsins né fyrirhugað hlutafjárútboð. Hann segir þó að einhverjar breytingar verði gerðar á flugáætlun félagsins á næstu vikum.
„Við vorum að gera ráð fyrir að fljúga um 20 prósent af upprunalegri áætlun í september, það verður væntanlega eitthvað minna. Til lengri tíma þá erum við enn þá að halda í okkar plön.“
Bogi segir þá að framleiðsla félagsins í júlí og ágúst hafi verið meiri en grunnspá gerði ráð fyrir.
„Síðan gengur þetta aðeins til baka og svona verður þetta væntanlega í nokkra mánuði í viðbót.“