Um 180 manns gistu í fjöldahjálparstöðinni í Reykjanesbæ í nótt. Flestir þeirra eru farþegar á leið í Ameríkuflug en vonast er til að aðgerðum í stöðinni verði lokið fyrir hádegi.
Fjöldahjálparstöð var opnuð í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ í gærkvöldi vegna óveðursins sem geisaði á Reykjanesi og víðar á suðvesturhorninu. Búist var við að um 400 manns yrðu í stöðinni í nótt.
Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri innanlandssviðs hjá Rauða krossinum, segir í samtali við Vísi nú í morgunsárið að sú tala hafi að endingu orðið nokkuð lægri en eins og áður sagði gistu um 180 manns í íþróttahúsinu.
Jón Brynjar segir að fjöldahjálparmiðstöðin hafi í raun orðið tvískipt. Fyrri hluta kvölds hafi þangað sótt fjöldi fólks frá Keflavíkurflugvelli sem komst ekki leiðar sinnar vegna ófærðar. Þegar Reykjanesbrautin var opnuð aftur seint í gær hóf strax að fækka töluvert í þeim hópi.
Síðar komu rútur af flugvellinum með strandaglópa sem búið var um í íþróttahúsinu. Jón Brynjar segir að nú á sjöunda tímanum sé rólegt yfir og nánast allir sofandi. Þá hafi aðeins örfáir farið upp á flugvöll það sem af er morgni.
Þá hafi allir lagst á eitt í gærkvöldi við undirbúning fjöldahjálparstöðvarinnar og aðgerðir gengið vel. Gert er ráð fyrir að stöðinni verði lokað um ellefuleytið.
Fjöldi flugvéla sat fastur við Keflavíkurflugvöll vegna veðurs í gærkvöldi og um tíma eftir miðnætti í gær voru um fjögur þúsund manns á flugvellinum.