Í morgun mældust tveir jarðskjálftar í Bárðarbungu og hafa um átta minni eftirskjálftar fylgt í kjölfarið. Engin merki eru um gosóróa en líklegt er talið að um sé að ræða stærstu skjálfta á svæðinu frá goslokum í Holuhrauni árið 2015, að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, vakthafandi náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni.
Sá fyrri mældist klukkan 04:32 í morgun og var 4,8 að stærð. Hann átti upptök sín í norðanverðri Bárðarbunguöskjunni. Kl. 04:56 varð svo annar skjálfti 4,0 að stærð á svipuðum stað.
Athugasemd: Fréttin var uppfærð klukkan 08:54 með leiðréttum skjálftastærðum. Samkvæmt fyrstu upplýsingum frá Veðurstofunni mældust þeir 5,0 og 4,2 að stærð.
„Það er algengt að það komi skjálftar þarna en ekki upp á 5,0. Í fyrra voru allavega sex yfir 4,0 að stærð á þessu svæði.“ Fyrri skjálftinn hafi því verið í stærri kantinum.
Hann bætir við að enn eigi eftir að fara betur yfir skjálftana í dag og gæti mæld stærð þeirra þá breyst lítillega.
