Knattspyrnusamband Íslands kynnti á dögunum hugmynd sína að mótaplani KSÍ fyrir komandi knattspyrnusumar og þar kom í ljós að Íslandsmótið hefur aldrei byrjað fyrr en það gerir í ár.
Samkvæmt áætlun Birkis Sveinssonar, sviðsstjóra innanlandssviðs KSÍ, sem hann kynnti fyrir félögunum mun fyrsti leikurinn í Pepsi Max deild karla fara fram 22. apríl næstkomandi.
Íslandsmótið hefur aldrei byrjað fyrr en 26. apríl en gamla metið var sett í fyrrasumar með leik Vals og Víkings föstudaginn 26. apríl.
Sumardagurinn fyrsti í ár er líka 23. apríl sem þýðir að í fyrsta sinn í sögunni byrjar Íslandsmótið í knattspyrnu fyrir fyrsta sumardag.
Pepsi Max deild karla á að fara fram frá 22. apríl til 26. september en bikarúrslitaleikurinn fer síðan fram eftir lokaumferðina. að þýðir að liðin sem komast í úrslitaleikinn munu bíða í næstum því tvo mánuði eftir úrslitaleiknum. Keppni í 1. deild karla hefst 2. maí og stendur til 19. september.
Leikir í Pepsi Max deild kvenna fara fram frá 1. maí til 12. september.
32 liða úrslit Mjólkursbikars karla eru áætluð 27. og 28. apríl sem þýðir að bikarsumar einhverra liða í Pepsi Max deildinni gæti endað fyrir 1. maí í ár.
Evrópukeppnin í knattspyrnu fer fram í sumar og þar gæti Ísland átt lið. Eins og áætlunin var kynnt á fundi félaganna þá munu aðeins liðin í Evrópukeppni félagsliða spila leiki á meðan riðlakeppni EM fer fram frá 12. til 24. júní.
Vinna við niðurröðun leikja sumarsins er í gangi en líkt og síðustu ár verður ekki opinn dráttur í töfluröð. Þessar upplýsingar eru því ekki endanlegar og mótið gætið tekið breytingum.
Það má finna kynningu Birkis Sveinssonar með því að smella hér.
