Straumur ferðamanna til austurríska alpabæjarins Hallstatt hefur stóraukist að undanförnu eftir að orðrómur fór á flug um að bærinn sé fyrirmynd Arendelle úr Frozen-myndunum.
Hallstatt er að finna um sjötíu kílómetrum suðaustur af Salzburg og telja íbúarnir um 780. Bæjarbúar hafa síðustu áratugina búið við mikinn ferðamannafjölda, en aukningin er nú slík að um 10 þúsund manns heimsækja bæinn daglega, að því er fram kemur í frétt Independent.
Bæjarstjórinn Alexander Scheutz segir að heimsóknir ferðamanna hafi að langstærstum hluta staðið yfir yfir sumarmánuðina og bærinn jafnan lagst í ákveðinn vetrardvala. Nú hafi hins vegar orðið mikil aukning yfir vetrarmánuðina, borið saman við fyrri ár.
The town Arendelle was inspired by! pic.twitter.com/TJxTibfaAN
— ᴍs. sᴄʜɪʟʟɪɴɢ (@crackheadpipes) January 7, 2020
Hallstatt er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Austurríki og er áætlað að um milljón manns heimsæki bæinn á hverju ári. Þar er meðal annars að finna eina elstu saltnámu í heimi, en staðsetning og umhverfi bæjarins þykja einstaklega fögur.
„Markmiðið er að fækka um þriðjung,“ segir Scheutz í samtali við Times, en viðurkennir þó að bærinn hafi enga leið til að stöðva komu þeirra. „Hallstatt er mikilvægur hluti menningarsögunni, ekki safn.“

Þó að íbúar Hallstatt hafi vissulega hagnast að mörgu leyti á þessum mikla straumi ferðamanna, til að mynda að búðir geta haft opið allan ársins hring og skólar og menningarstofnanir eru enn starfræktar, ólíkt því sem gerst hefur í mörgum öðrum austurrískum smábæjum í Ölpunum, þá hefur það ekki einungis verið tekið út með sældinni.
„Þetta er stórslys,“ segir Verena Lobisser, eigandi gistiheimilis í bænum, í samtali við Washington Post. „Margir telja í alvörunni að þetta sé skemmtigarður.“