Nýja-Sjálandi hefur tekist vel til í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum en í dag eru hundrað dagar liðnir frá því að síðast greindist smit þar í landi. Síðast greindist smit innanlands þann 1. maí en þá voru aðeins nokkrir dagar liðnir frá því að létt var á takmörkunum sem höfðu verið í gildi.
Þá voru 23 virk smit í landinu og allir voru í einangrun. Frá upphafi faraldursins í Nýja-Sjálandi, sem barst þangað í lok febrúar, hafa 1.219 greinst með veiruna og 22 látist af hennar völdum.
Gripið var til harðra aðgerða strax í upphafi, útgöngubann var sett á, takmarkanir voru við landamæri og umfangsmiklum aðgerðum hrundið af stað til að skimun fyrir veirunni væri sem mest.
Yfirvöld hafa þó hamrað á því að þrátt fyrir þennan stóra áfanga sé enn hætta á að önnur bylgja faraldursins ríði yfir landið.