Þingmaður fulltrúadeildar Bandaríkjaþings líkti Donald Trump Bandaríkjaforseta við ítalska einræðisherrann og fasistann Benito Mussolini í dag. Þá kvað þingmaðurinn ólíklegt að Trump léti þegjandi og hljóðalaust af embætti, ef svo færi að hann næði ekki endurkjöri í forsetakosningum í nóvember.
„Ég held ekki að Donald Trump sé á förum úr Hvíta húsinu,“ sagði Jim Clyburn, demókrati og þingmaður fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í viðtali í sjónvarpsþættinum State of the Union á CNN í dag.
Andstæðingar Trumps, sem og flokksbræður, hafa brugðist ókvæða við eftir að hann ýjaði að því fyrir helgi að forsetakosningunum í nóvember yrði frestað. Trump hefur ekki völd til þess að fresta kosningunum.

„Hann hyggur ekki á sanngjarnar og fjötralausar kosningar,“ sagði Clyburn. Hann teldi að Trump myndi reyna allt sem í sínu valdi stæði til að halda sér í embætti biði hann ósigur í kosningunum.
Þá vék Clyburn að ummælum um Trump sem hann lét falla í viðtali við PBS-sjónvarpsstöðina á föstudag. Þar líkti Clyburn þeim síðarnefnda við Adolf Hitler. Í viðtalinu við CNN í dag sagði Clyburn að Trump væri þó líkari öðrum einræðisherra, áðurnefndum Mussolini, en Hitler. Þá líkti Clyburn loks Vladímír Pútín Rússlandsforseta við Hitler.
Trump bar því fyrir sig á fimmtudag að forsetakosningarnar í nóvember yrðu litaðar stórfelldu kosningasvindli, þar sem yfirvöld fjölda ríkja vilja leyfa íbúum að greiða póstatkvæði vegna faraldurs kórónuveiru. Þess vegna yrði þeim mögulega frestað.