Bandaríski rapparinn Action Bronson, sem m.a. kom fram á Secret Solstice í Laugardal árið 2016, bregður sér í hlutverk kraftajötunsins Magnúsar Vers Magnússonar í nýjasta myndbandinu sínu.
Myndbandið er við lagið Latin Grammys sem er það fyrsta sem Bronson sendir frá sér á þessu ári. Þar er aflraunakeppnin Sterkasti maður heims árið 1995 í fyrirrúmi, keppni sem Magnús Ver sigraði og varði þar með titil sinn frá árinu áður.
Það er því kannski ekki nema von að Bronson velji Magnús sem fyrirmynd sína í myndbandinu. Rapparinn nýtir sér tölvutæknina til að fella andlit sitt ofan á höfuð Magnúsar, kynnir sig til leiks sem Action Ver Magnusson og rappar á milli þess sem hann lyftir þungum hlutum.
Bronson hefur sjálfur verið duglegur að hreyfa sig að undanförnu. Hann hefur skafað af sér rúmlega 36 kíló á síðustu mánuðum og verið duglegur við að auglýsa það á samfélagsmiðlum.
Myndbandið við Latin Grammys er ekki aðeins virðingavottur við íþróttaafrek fortíðar heldur vísar Bronson í texta lagsins meðal annars í ökuþórinn Dale Earnhardt, sem lést við NASCAR-akstur árið 2001, og Derek Jeter sem var liðtækur hafnaboltakappi á sínum tíma.
Myndbandið við Latin Grammys má sjá hér að neðan.