Sjálfsmynd máluð af hollenska málarameistaranum Rembrandt var í dag seld fyrir 14,5 milljónir punda, andvirði 2,5 milljarða króna, á stafrænu uppboði uppboðshaldarans Sotheby‘s.
Sex aðilar reyndu að tryggja sér eignarhald yfir myndinni sem var máluð árið 1632 og er ein þriggja sjálfsmynda eftir Rembrandt sem eru í einkaeigu. Síðast þegar sjálfsmynd eftir Rembrandt van Rijn var á uppboði seldist hún á 6,9 milljónir punda.
Uppboðið var hluti af stærra stafrænu uppboði uppboðshaldarans og verða á næstunni verk eftir listamenn á borð við Picasso, Banksy og Joan Miró seld til hæstbjóðanda.