Viðskipti innlent

Síðasti borgarinn verið steiktur á Hamborgarasmiðjunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hamborgarasmiðjan var síðast til húsa að Grensásvegi.
Hamborgarasmiðjan var síðast til húsa að Grensásvegi. ja.is

Tíu ára sögu Hamborgarasmiðjunnar er lokið. Síðasti hamborgarinn var steiktur á Grensásvegi í gær, en kórónuveiruþrengingar eru sagðar hafa riðið Hamborgarasmiðjunni að fullu.

„Þetta eru búin að vera frábær 10 ár og það er sárt að þurfa að loka, en 5 mánuðir með 85% minni veltu gerði það að við lifðum þetta ekki af,“ segir í orðsendingu eigenda staðarins til viðskiptavina vegna lokunarinnar.

Eigendurnir segjast vonlitlir um að veitingageirinn muni taka við sér aftur. Því hafi verið ákveðið að skella frekar í lás fremur en að umturna rekstrinum.

„Það stóð til að færa Smiðjuna, minnka kostnað og hagræða en við sjáum ekki að markaðurinn sé eitthvað að lifna við á næstum mánuðum og því höfum við tekið þessa ákvörðun að loka.“

Hamborgarasmiðjan var til húsa á Smiðjuvegi í Kópavogi áður en staðurinn flutti á Grensásveg 5 til 7. Rýmið hefur undanfarinn áratug hýst skemmtistaði á borð við Steak and Play, Replay og 80's Club.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×