Helena Sverrisdóttir ætlar ekki að láta sitt eftir liggja í söfnuninni fyrir landsliðskonuna Berglindi Gunnarsdóttur sem fer fram í kringum Reykjavíkurmaraþonið í ár.
Berglind Gunnarsdóttir lenti í alvarlegu rútuslysi í janúar þar sem hún slasaðist illa á hálsi. Berglind gefur ekkert eftir í endurhæfingunni ekki frekar en inn á körfuboltavellinum sjálfum.
Helena Sverrisdóttir er fyrirliði íslenska körfuboltalandsliðsins og hún og Berglind Gunnarsdóttir hafa spilað lengi saman í íslenska landsliðinu.
Helena sagði frá því á fésbókarsíðu sinni að hún ætlaði að safna áheitum fyrir Berglindi með því að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. Helena tekur líka eiginmanninn, Finn Atla Magnússon, með.
„Ég og Finnur ætlum að hlaupa 10 km í RVK maraþoninu í ár og safna áheitum fyrir Berglindi. Hef spilað ófáa landsleikina með Berglindi og meiri nagla hefur maður vart kynnst. Hún lenti í alvarlegu slysi í janúar og er á fullu í ansi kostnaðarsamri endurhæfingu og ég væri mjög þakklát ef þið sæuð ykkur fært að styrkja málefnið,“ skrifaði Helena á fésbókarsíðu sína.
Helena tekur það jafnframt fram að hún verði þarna komin 26 vikur á leið og segir að þetta verði kannski meira “hlabb” heldur en hlaup frá henni í þetta skiptið.
Áður en að Reykjavíkurmaraþoninu kemur þá ætlar Helena Sverrisdóttir að halda sínar árlegur Stelpubúðir sínar en þær eru að fara fram í tólfta skiptið í ár.
Stelpubúðir Helenu Sverrisdóttur fara fram þann 24. til 26. júlí næstkomandi í Origo Höllinni á Hlíðarenda. Skipt er í tvo flokka eftir aldri þar sem að leikmenn fæddir 2004-2008 eru eldri og leikmenn fæddir 2009-2012 eru í yngri hóp.