Sólarhringurinn var annasamur hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en dælubílar voru boðaðir í fimm minniháttar útköll í gær. Útköll sjúkrabíla voru hins vegar 104 talsins og voru verkefni með forgangi þar af 39 sem að sögn Slökkviliðsins er hátt hlutfall.
Þá segir í tilkynningu frá Slökkviliðinu að fólk gæti verið að „gleyma sér aðeins í skemmtanahaldi og gleyma pestinni.“ Nokkur útkallanna voru á miðbæjarsvæðið og var þar að finna þó nokkurn mannfjölda.
Það rímar við reynslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en um fimmtungur allra mála sem komu upp á milli 17 í gærkvöldi og 5 í morgun voru kvartanir vegna samkvæmishávaða í heimahúsum.
Af 100 málum sem færð voru til bókar lögreglu voru átján vegna samkvæmishávaða. Flestar þeirra, eða fjórtán, komu úr miðborginni.