Viðskipti innlent

Taka sér einn mánuð til viðbótar til að meta hvort álverinu verði lokað

Kristján Már Unnarsson skrifar
ISAL, álver Rio Tinto í Straumsvík, fagnaði 50 ára afmæli í fyrra.
ISAL, álver Rio Tinto í Straumsvík, fagnaði 50 ára afmæli í fyrra. Vísir/Vilhelm Gunnarsson.

Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, nær ekki að ljúka endurskoðun á starfsemi ISAL fyrir þessi mánaðamót, eins og fyrirtækið hafði stefnt að, og vonast nú eftir niðurstöðu fyrir lok júlímánaðar. Einn af möguleikunum sem eru til skoðunar er að loka álverinu. Fjallað var um stöðu málsins í fréttum Stöðvar 2.

Mörgum var brugðið, ekki síst fimmhundruð starfsmönnum í Straumsvík, þegar Rio Tinto tilkynnti í febrúar að lokun álversins væri meðal þeirra möguleika sem væru uppi á borðinu í sérstakri endurskoðun sem hafin væri til að meta rekstrarhæfi ISAL til framtíðar. Álverið var sagt óarðbært vegna ósamkeppnishæfs raforkuverðs og lágs verðs á áli og hóf fyrirtækið viðræður bæði við Landsvirkjun og íslensk stjórnvöld.

„Í fyrirhugaðri endurskoðun verða allar leiðir skoðaðar, þar á meðal frekari framleiðsluminnkun og mögulega lokun. Endurskoðunarferlinu verður lokið á fyrri helmingi árs 2020,“ sagði í tilkynningu Rio Tinto. Samkvæmt henni átti endurskoðunarferlinu að vera lokið í síðasta lagi í dag, 30. júní.

Í millitíðinni gerðist það í aprílmánuði að Landsvirkjun ákvað tímabundið í sex mánuði að veita stórnotendum allt að fjórðungs afslátt frá orkuverði vegna kórónufaraldursins.

En hvað líður endurskoðunarferli Rio Tinto?

„Endurskoðun Rio Tinto á starfsemi ISAL, sem kynnt var í febrúar, er ekki lokið,“ svarar Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi ISAL.

„Ekki hefur enn náðst samkomulag við Landsvirkjun um orkuverð sem gerir ISAL samkeppnishæft og fjárhagslega sjálfbært til framtíðar. Vonast er til að hægt verði að skýra frá niðurstöðu fyrir lok júlímánaðar,“ segir Bjarni Már.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Telur meiri líkur en minni að Rio Tinto verði hér um ókomin ár

Það er af og frá að til greina komi að Alþingi beiti sér með einhverjum hætti til að hafa áhrif á samninga um kaup álframleiðenda á raforku. Þetta segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×