Viðskipti innlent

„ESB hefur nú sýnt klærnar og sitt rétta and­lit“

Árni Sæberg skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir var ómyrk í máli þegar þingfundur dagsins hófst.
Guðrún Hafsteinsdóttir var ómyrk í máli þegar þingfundur dagsins hófst. Vísir/Vilhelm

„ESB hefur nú sýnt klærnar og sitt rétta andlit með því að staðfesta ákvörðun um verndartolla á kísilmálm þar sem Ísland og Noregur fá enga undanþágu,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, við upphaf þingfundar dagsins.

Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu tillögu um verndartolla á innflutt járnblendi á fundi í morgun. Framkvæmdastjórn sambandsins segist ætla að eiga í reglulegu samráði við íslensk og norsk stjórnvöld um aðgerðirnar en löndin tvö eru þó ekki undanþegin verndarráðstöfununum.

Utanríkisráðherra hefur sagt niðurstöðu fundarins mikil vonbrigði og að brotið hafi verið gegn grundvallaratriðum EES-samningsins með ákvörðuninni.

Þingfundur hófst klukkan 13:30 með líflegum umræðum um fundarstjórn forseta. Umræðurnar snerust reyndar ekki að nokkru leyti um fundarstjórn forseta heldur aðeins um ákvörðun aðildarríkja ESB.

„Hvað er næst?“

Guðrún Hafsteinsdóttir steig fyrst í ræðustól og sagði sambandið með ákvörðuninni hafa sýnt klærnar og sitt rétta andlit. Þá vísaði hún í orð Álfheiðar Ágústsdóttur, forstjóra Elkem, um að niðurstaðan væru hryllileg vonbrigði.

„Þetta snýst ekki bara um eina vöru eða eina atvinnugrein heldur snýst þetta um grundvallarspurningu. Er Ísland raunverulega hluti af innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn eða ekki?“ spurði Guðrún.

Með ákvörðuninni væri Evrópusambandið að brjóta á Íslandi og Noregi, brjóta gegn grundvallarreglu EES-samningsins um frjálst flæði vöru.

„Ég minni á að samningurinn gengur út á frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns og því spyr maður, hvað er næst?“

Fullkomlega ömurlegt á Bakka

Guðrún sagðist hafa verið á Bakka í gær, í verksmiðju PCC. Ískaldri og hljóðri verksmiðjunni, sem hafi verið algjörlega mannlaus. „Það var fullkomlega ömurlegt.“

Rekstur kísilvers PCC á Bakka var stöðvaður í sumar vegna erfiðra markaðsskilyrða. PCC framleiðir kísilmálm, en verndarráðstafanir ESB snúa aðeins að kísiljárni, eða járnblendi, ekki hreinum kísilmálmi.

Kallar eftir fundi formanna

Loks sagði Guðrún að hún hefði alla tíð stutt EES-samninginn og myndi gera það áfram.

„Nú kalla ég eftir því að forsætisráðherra kalli saman alla flokka formenn flokka á Alþingi til að fara yfir þessa stöðu og upplýsa þingheim um stöðuna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×