Svava Kristín Grétarsdóttir ræddi við Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, um stöðu efstu deilda hér á landi en leikmenn í báðum deildum eru með Covid-19. Alls eru þrjú lið komin í sóttkví og þarf því að fresta fjölda leikja næstu tvær vikurnar.
„Já ég tel góðar líkur á því,“ sagði Klara aðspurð hvort góðar líkur væru á því að Íslandsmótið yrði klárað á réttum tíma. Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.
„Stutta svarið við þessu er nei, hvað síðan ef það hefði ekki virkað. Það er ekki leið sem hefur komið til greina hjá okkur,“ sagði Klara varðandi hvort það hefði verið möguleiki að setja báðar deildir alveg á ís í tvær vikur til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.
„Við erum að skoða hvað við getum gert. Það lýtur ágætlega út,“ sagði framkvæmdastjóri KSÍ um þá leiki sem frestað hefur verið og hvernig þeim verður komið fyrir í nú þegar þéttri leikjaáætlun.
Klara var spurð hvort sambandið hefði ekki mögulega átt að skikka þá leikmenn sem væru að koma hingað til lands í tveggja vikna sóttkví.
„Ég sé ekki hvernig það á að vera. Við vitum ekki þannig lagað hvaðan leikmenn eru nákvæmlega að koma til landsins. Burt séð frá einstaka dæmum þá til dæmis þeir leikmenn sem eru í Bandaríkjunum og spila í háskólabolta þurfa ekki félagaskipti. Við vitum ekki hvenær þeir koma heim.“
„Ég held það sé alveg ljóst að knattspyrnuhreyfingin, líkt og þjóðfélagið allt, vorum farin að slaka á og vera væru kær. Það hefur komið okkur öllum í koll. Hreyfingin hefur vaknað og ég veit að miklar varúðarráðstafanir eru fyrir leiki kvöldsins,“ sagði Klara að lokum.