Körfubolti

„Mörg lið sem ég væri mjög til í að spila fyrir sem hafa haft samband“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin á lestarstöðinni í Berlín í fyrradag.
Martin á lestarstöðinni í Berlín í fyrradag. vísir/getty

Ekki liggur enn fyrir hvar Martin Hermannsson leikur á næsta tímabili. Samningur hans við nýkrýnda Þýskalandsmeistara Alba Berlin er að renna út og félagið vill halda honum. Martin standa þó ýmsir kostir til boða.

Martin ræðir við forráðamenn Alba Berlin í dag. „Þeir vilja bjóða mér nýjan samning og auðvitað skoða ég það. En það er margt annað spennandi í pípunum,“ sagði Martin í samtali við Vísi í gær.

Á sunnudaginn varð Alba Berlin Þýskalandsmeistari eftir sigur á Riesen Ludwigsburg, 74-75, í seinni úrslitaleik liðanna. Martin og félagar unnu þann fyrri, 65-88, og einvígið, 163-139 samanlagt. Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði fjórtán stig í báðum úrslitaleikjunum.

Alba Berlin varð einnig þýskur bikarmeistari og auk þess að spila í EuroLeague, sterkustu deild Evrópu. Martin átti marga góða leiki í EuroLeague og frammistaða hans þar vakti mikla athygli. Mörg félög vilja fá Martin í sínar raðir.

„Félög hafa sett pappíra á borðið og önnur félög ætla að gera það sama. En það er enn smá tími í að ég taki endanlega ákvörðun. Það er margt mjög spennandi í boði og mörg lið sem ég væri mjög til í að spila fyrir sem hafa haft samband,“ sagði Martin.

En eru meiri eða minni líkur að hann verði áfram hjá Alba Berlin?

„Það er allt opið. Okkur fjölskyldunni líður rosalega vel hérna og Berlín er geggjuð borg. Þetta er frábært lið og menn eru ekkert saddir þótt við höfum unnið tvöfalt. Maður finnur það alveg. Þeir vilja gera betur í EuroLeague,“ svaraði Martin.

„Ég þarf að hugsa um að vera á stað þar sem ég fæ að spila og er í stóru hlutverki. Ég verð bara 26 ára á þessu ári og er enn þokkalegur ungur. Ég þarf bara að setjast niður með umboðsmanninum og fjölskyldunni og sjá hvað hentar best. En auðvitað vill maður alltaf taka næsta skref.“


Tengdar fréttir

Martin þýskur meistari

Martin Hermannsson og félagar hans í Alba Berlín eru þýskir meistarar í körfubolta eftir sigur á Ludwigsburg í síðari úrslitaleiknum, 75-74.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×