Gert ráð fyrir að áfangastöðum Icelandair fjölgi verulega í júlí. Þá eru Íslendingar farnir að bóka flug í auknum mæli, sérstaklega til Norðurlandanna.
Opnun landamæranna hefur mikil áhrif á Icelandair sem flýgur nú til tíu áfangastaða í Evrópu og til Boston. Líklega verði áfangastöðum fjölgað strax í júlí.
„En þá þarf ýmislegt að ganga upp; sýnatökugetan í Keflavík þarf að aukast, það þarf að vera búið að opna ytri landamæri schengen svo að Bandaríkjamenn megi koma til Evrópu og svo þurfa auðvitað bandaríkin að opna en þá sjáum við fyrir okkur mikla aukningu. Upp í svona 25-26 áfangastaði, svona fjórum sinnum í viku á hvern stað,“ segir Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair.
Áætlunin sé í sífelldri endurskoðun en Birna segir Íslendinga vera farna að bóka flug í auknum mæli.
„Við erum að sjá mikinn áhuga á nágrannaþjóðunum. Það er Noregur það er Danmörk og við ákváðum að bæta Billund við í júlí og það hefur strax komið mikill áhugi þar,“ segir Birna.