Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna hefur afturkallað tímabundið leyfi sem stofnunin gaf við notkun á lyfjunum hydroxychloroquine og chloroquine gegn Covid-19 sjúkdóminum.
CNN segir frá og segir í frétt á vef fjölmiðilsins að stofnunin hafi yfirfarið nýlegar rannsóknir á virkni lyfjanna gegn Covid-19. Hafi vísindamenn stofnunarinnar komist að þeirri niðurstöðu að lyfin séu ólíkleg til þess að vera gagnleg sem meðferð við Covid-19, því hafi tímabundið leyfi sem stofnunin gaf út til notkunar lyfjanna verið afturkallað.
Leyfið tímabundna hafði aðeins gilt vegna sjúklinga sem lagðir höfðu verið inn á sjúkrahús vegna Covid-19 en læknar gátu þó, og geta enn, sótt um að fá nota lyfin gegn Covid-19, líkt og í tilfelli Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem mærði hydroxychloroquine sem töfralausn við kórónuveiruheimsfaraldrinum. Notaði hann lyfið sjálfur, líkt og komið hefur fram.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er enn að yfirfara rannsóknir í tengslum við notkun á lyfjunum vegna Covid-19. Lyfin er notuð gegn malaríu.
Hydroxychloroquine hefur orðið að hápólitísku deiluefni eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hampaði lyfinu sem nokkurs konar töfralausn gegn kórónuveirufaraldrinum og sagðist jafnvel taka það sjálfur þrátt fyrir að hann hefði ekki greinst smitaður af veirunni. Ekki hefur verið sýnt fram á virkni lyfsins gegn Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur.