Erlent

Noregur: Allir í sóttkví sem ferðast utan Norðurlandanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Erna Solberg, forsætisráðherra, lýsir aðgerðunum í Noregi sem þeim umfangsmestu á friðartímum. Myndin er úr safni.
Erna Solberg, forsætisráðherra, lýsir aðgerðunum í Noregi sem þeim umfangsmestu á friðartímum. Myndin er úr safni. Vísir/EPA

Norska ríkisstjórnin kynnti nýjar og hertar aðgerðir til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar í dag. Allir þeir sem hafa ferðast utan Norðurlandanna þurfa að fara í sóttkví við komuna til Noregs og þá verður skólum á öllum stigum lokað.

Nýju tilmælin ná til allra þeirra sem hafa ferðast utan Norðurlandanna eftir 27. febrúar. Þeim er sagt að gangast undir fjórtán daga sóttkví eftir heimkomu til Noregs. Þá hvetja stjórnvöld almenning til þess að forðast óþarfa ferðalög.

Heilbrigðisyfirvöld ákváðu einnig að loka öllum leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, háskólum og öðrum menntastofnunum til þess að reyna að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kórónuveirunnar. Veikindaréttur fólks vegna barna verður aukinn til að bregðast við, að því er kemur fram í frétt norska ríkisútvarpsins NRK.

Erna Solberg, forsætisráðherra, lýsti yfirvofandi aðgerðum sem þeim umfangsmestu á friðartímum í Noregi og að almennir borgarar ættu eftir að finna fyrir áhrifum þeirra í daglegu lífi sínu. Norðmönnum hefur verið ráðlagt að forðast almenningssamsöngur og staði þar sem fólk er í miklu návígi.

„Ef við leggjum hart að okkur núna getum við slakað frekar á síðar,“ sagði Solberg sem varaði við því að norsk þjóðlíf ætti eftir að mjakast hægt næstu dagana.

„Það er afar mikilvægt að fólk fylgi þessum tilmælum. Ef við ætlum að hafa hemil á þessu verða allir að leggja hönd á plóg,“ sagði ráðherrann.

Samkomubanni hefur jafnframt verið komið á. Þannig verður fjöldi viðburða og samkoma nú bannaður. Þannig verða menningarviðburðir, íþróttaviðburðir og iðkun, starfsemi veitingastaða nema þeirra sem geta tryggt að minnsta kosti metra bil á milli gesta,  starfsemi líkamsræktarstöðva, snyrti- og nuddstofa og sundlauga bönnuð tímabundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×