Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir að sex hundruð manns séu nú í sóttkví hér á landi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Hann segir að upp hafi komið annað tilfelli um svokallað yfirborðssmit hér á landi og eru þau því alls tvö en sagt var frá því fyrsta í gær. Alls hefur verið greint frá 69 smitum hér á landi.
Þetta er á meðal þess sem kom fram í viðtali fréttamanns Stöðvar 2 ræddi við Víði í samhæfingarstöð almannavarna um hádegisbil í dag. Athygli er vakin á því að í viðtalinu segir Víðir að maður á níræðisaldri sé í sóttkví en leiðrétti síðar við fréttastofu að viðkomandi væri á áttræðisaldri, 76 ára.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur boðað tiluppplýsingafundar fyrir blaðamenn klukkan 14 í dag í Skógarhlíð 14. Verður hægt að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 3 auk þess sem fylgst verður með í vaktinni.
Enginn alvarlega veikur
Víðir segir að enginn af hinum smituðu sé alvarlega veikur þó að einhverjir hafi fengið háan hita. Einhverjum hafi liðið illa, en ekki hefur þurft að flytja neinn á sjúkrahús.
Víðir segir hættu á að innanlandssmitum muni fjölga samfara því að fólk sem hefur verið á hættusvæðum snúi aftur til landsins. „Jú, það er hætta á að einhver af þessum aðilum hafi verið komnir með einkenni og það er líka hætta á því að þeir hafi farið í vinnu. Þrátt fyrir að við erum alltaf að ráðleggja fólki, ef það er veikt að vera þá heima. En kannski hafa einkennin þá verið lítil.“
Um hundrað sýni á dag
Alls hefur tekist að greina mest hundrað sýni á dag á Landspítalanum og er stefnt að því að vinna með Decode að greiningu og þannig auka afkastagetuna. Vonandi verði hægt að hefjast handa um helgina.
Virðist sem að 10 til 12 prósent þeirra sem sýni er tekið af hafa greinst með smit. Hópurinn sem sýni sé tekið af sé hins vegar mjög afmarkaður.
Fréttin hefur verið uppfærð.