Erlent

Mót­mæla hug­myndum um bann við kyn­fræðslu og hertari reglum um þungunar­rof

Atli Ísleifsson skrifar
Strangar reglur um samkomubann þýða í raun að mótmælaaðgerðir á götum úti eru í raun óheimilar. Í Varsjá hafa andstæðingar stjórnarinnar notast við hjól og bíla til að koma óánægju sinni á framfæri.
Strangar reglur um samkomubann þýða í raun að mótmælaaðgerðir á götum úti eru í raun óheimilar. Í Varsjá hafa andstæðingar stjórnarinnar notast við hjól og bíla til að koma óánægju sinni á framfæri. AP

Stjórnarandstæðingar í Póllandi hafa sakað stjórnarflokkinn Lög og réttlæti (PiS) um að misnota sér ástandið í landinu og heiminum og koma nú umdeildum málum í gegn.

Stefnir flokkurinn að því að koma frumvörpum í gegn sem myndu fela í sér að kynfræðsla fyrir börn yrði bönnuð og sömuleiðis að reglur um skilyrði fyrir þungunarrofi hertar enn frekar.

Mannréttindavaktin (Human Rights Watch) og ýmsir aðgerðasinnar hafa gagnrýnt pólsk stjórnvöld harðlega og sakað þau um að misnota ástandið. 

Strangar reglur um samkomubann þýða að mótmælaaðgerðir á götum úti eru í raun óheimilar. Í Póllandi má fólk nú að hámarki tveir koma saman á hverjum tíma. Einhverjir stjórnarandstæðingar hafa því notast við hjól og bíla til að koma óánægju sinni á framfæri.

Hertar reglur um þungunarrof

Ein lagabreytingin sem PiS reynir nú að ná í gegn felur í sér bann við þungunarrofi, í þeim tilfellum þar sem sannað er að fóstrið sé alvarlega skaðað.

Í frétt NRK kemur fram að í Póllandi sé nú einungis heimilt að gangast undir þungunarrof eftir nauðgun, sé líf konunnar í hættu eða ef sannað þykir að fóstrið sé alvarlega skaddað. Stjórnin stefnir nú að því að fjarlægja þetta þriðja skilyrði úr lögunum. Eru það fyrst og fremst kaþólska kirkjan og trúarlegir þrýstihópar sem hafa þrýst á lagabreytinguna.

Pólska stjórnin reyndi einnig að koma breytingunni í gegn árið 2016, en þurfti að bakka með tillögurnar eftir umfangsmiklar mótmælaaðgerðir tugþúsunda kvenna víðs vegar um landið.

Sagt á pari við barnaníð

Stjórnin hefur einnig lagt fram tillögu sem felur í sér að það verði refsivert og varðað fimm ára fangelsi að skipuleggja kynfræðslu fyrir börn í skólum. Er slíkt sagt jafnast á við barnaníð, en Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi PiS, hefur sagt kynfræðslu árás á hefðbundið fjölskyldumynstur.

Pólska þingið tekur málin til umræðu í dag og er talið að fyrsta atkvæðagreiðsla kunni einnig að fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×