Ríkisstjórn Danmerkur er tilbúin til að létta á félagsforðun þar í landi, fyrr en til stóð. Mette Frederiksen, forsætisráðherra, segir allar kúrvur á réttri leið og það sé tilefni til fagnaðar. Hún er þó ekki tilbúin til að segja hvað standi til að opna og segir að til standi að ræða það við forsvarsmenn þingflokkanna. Þær viðræður hefjast í kvöld.
Skólar verða að miklu leyti opnaðir á nýjan leik á morgun. Til stóð að kaffihús, hárgreiðslustofur og slíkt mætti opna þann 10. maí næstkomandi og var það tilkynnt í síðustu viku. Frederiksen vill nú flýta því.
Hún sagði í dag að enn yrði forgangur á forvarnir enn aðgerðunum væri ætlað að styrkja efnahag Danmerkur í sessi og tryggja störf. Stigið yrði rólega og varlega til jarðar í þessum málum.
Samkvæmt tölum Johns Hopkins háskólans hefur í Danmörku minnst 6.691 greinst með Covid-19, sjúkdóminn sem nýja kórónuveiran veldur, og hafa minnst 299 dáið.
Frederiksen var spurð að því í dag hvort ríkisstjórn hennar hefði brugðist of hart við og gripið til of umfangsmikilla aðgerða. Hún tók alls ekki undir það. Hún sagði stöðuna víðast hvar ekki jafn góða og í Danmörku og að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi líklegast bjargað mannslífum.
Hún sagði að samkomulag Dana um félagsforðun hafa borið betri árangur en vonast hafi verið eftir.