Slökkvistarfi við Hverfisgötu 106 lauk nú fyrir skömmu. Tilkynning um eldinn barst á áttunda tímanum í kvöld og var allt tiltækt slökkvilið sent á vettvang.
Fyrsta tilkynning var um reyk frá þaki en þegar fyrstu viðbragðsaðilar mættu á vettvang var ljóst að um mikinn eld var að ræða. Enginn var í húsinu þegar eldurinn kom upp.
Sjá einnig: „Ég hefði viljað hafa tilkynninguna aðeins agressífari“
Eldurinn kviknaði í risíbúð og er mikið tjón að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu. Rífa þurfti þakið og ganga úr skugga um að búið væri að slökkva alla glóð, annars væri hætta á að eldurinn tæki sig upp aftur.
„Í svona gömlum húsum er þetta dálítið mikið rifrildi. Það eru allar gerðir af einangrun í þakinu og búið að klastra þetta í gegnum árin þannig þetta er dálítið mikið rifrildi. Við hættum ekkert fyrr en allt er horfið, reykur og vesen,“ sagði Árni Oddsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu, í samtali við fréttastofu fyrr í kvöld.